Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Úr öskunni í eldinn

Í frétt á mbl.is er haft eftir Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur að ljóst sé að kjósendur óski eftir aðildarviðræðum við ESB.

Þetta er oftúlkun hjá Sigríði en ekki einsdæmi meðal Sandfylkingarmanna þeir leggja sig alla fram við að túlka allt sér í hag.  Gott dæmi er viðræðu-þáttur stjórnmálaleiðtoga í gærkveldi á ríkissjónvarpinu þar sem Jóhanna taldi Sandfylkinguna vera sigurvegara kosninganna, sem er auðvitað alrangt, en það voru Vinstri grænir sem voru sigurvegarar, það vita allir nema þeir í SF.  Annað dæmi er framganga Össurar Skarphéðinssonar þegar hann túlkar orð VG er þeir segjast ekki tilbúna í aðildarviðræður, þá sér Össur allt aðra hlið á svari þeirra,  hann virðist heyra orðið já þegar þeir segja nei.  Össuri er það einum lagið að skilja hlutina allt öðruvísi en þeir eru sagðir, virðist það reyndar eiga við fleiri í SF.

Það væri að fara úr öskunni í eldinn að ganga í ESB, það gerir meirihluti þjóðarinnar sér fyllilega grein fyrir.

 


mbl.is Ljóst að kjósendur óska eftir aðildarviðræðum við ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

ESB heilaþvottur Sandfylkingar heldur áfram

Þrátt fyrir að Sandfylkingin hafi ekki bætt við sig nema þeim þrem prósentum sem Íslandshreyfing Ómars Ragnarssonar kom með inn í fylkinguna, telur fylkingin sig vera sigurvegara kosninganna.  Hvílík fásinna !!  SF telur sig hafa aukið umboð til ESB umsóknar.  Össur Skarphéðinsson er ötull við að túlka orð annarra og úrslit kosninga þótt hann hafi ekkert fyrir sér nema hans eigin óskhyggju.

Í þættinum Silfur Egils á RÚV í dag tók Össur að sér að túlka orð Ögmundar Jónassonar, sem sat honum við hlið og ESB sinnin Egill Helgason gaf Ögmundi ekki tækifæri á að útskýra sitt mál, en Egill og fréttamenn yfirleitt gera þetta iðulega.

Sigurvegarar kosninganna VG sem bættu við sig 7,4% og 5 þingsætum unnu fyrst og fremst vegna andstöðu þeirra við ESB aðild.  SF sem er eini ESB flokkurinn bætir engu við sig, nema fylgi Ómars Ragnarssonar, telur sig vera sigurvegara og vill á þeirri forsendu ganga til aðildarviðræðna og áfram halda þeir heilaþvottinum gangandi og reyna að sannfæra fólk um að það vilji ganga í ESB.  Staðreyndin er sú að almenningur vill ekki ganga í ESB, skoðanakannanir sýna að þjóðin er andvíg aðildarviðræðnum.  Það er sama hversu mikið SF ber hausnum við steininn, þeir verða bara ringlaðri og fá að lokum alvarlegan hausverk.

Í þætti sjónvarpsins eftir fréttir komu forystumenn stjórnmálaflokkanna saman og það sem vakti athygli mína var viss pirringur á milli Jóhönnu og Steingríms.  Ég spái því að það mun taka töluverðan tíma fyrir þessa flokka að ná saman og bíða aðkallandi viðfangsefni á meðan.  Nái þeir ekki saman mun verða langur ferill að nýju stjórnarsamstarfi.

Hvorki SF né aðrir ESB sinnar hafa getað útskýrt staðhæfingar sínar um að aðild að ESB muni bjarga íslensku þjóðinni og efnahag okkar.  Eitt af því sem þeir þó nefna eru vextirnir, okkur nægir að reka norska Seðlabanka-stjórann og setja íslenskan Seðlabankastjóra sem hefur hag þjóðarinnar að leiðarljósi og lækkar vextina strax.  Á sama tíma neita þeir að tala um atvinnuleysið sem þjakar ESB ríkin og efnahagsþrengingarnar sem er að setja ýmsar ESB þjóðir á hausinn. 

ESB sem á að hjálpa íslendingum er ekki að hjálpa þeim þjóðum sem er nú þegar í ESB, hvernig má þetta vera ?  Er SF fólkið svona blint eða búa aðrar hvatir á bak við þráhyggju þeirra ?  Hvert svo sem svarið er þá er nokkuð víst að heilaþvottur SF heldur áfram þar sem þeir hamra á því að við verðum að ganga í ESB.  SF mun ekki stoppa við aðildarumsókn, því þegar búið verður að semja getum við verið viss um að sama hver niðurstaðan verður fyrir íslenska þjóð mun SF halda áfram að hamra á því að við verðum að ganga í klúbbinn, sama hvað það mun kosta okkur.  Ég treysti SF ekki fyrir fjöreggi þjóðar okkar.  Fjöreggið er lýðræðið og sjálfstæði okkar.

 


VG sigurvegarar kosninganna

Vinstri grænir eru óumdeilanlega sigurvegarar kosninganna, þeir bæta við sig 7,4% og 5 þingsætum, meðan Sandfylkingin bætir aðeins við sig 3% og 2 þingsætum.  Einnig má segja að Borgarahreyfingin hafi verið sigurvegari, en þeir fengu 7,2% greiddra atkvæða og 4 þingmenn.  Framsóknarflokkurinn háði varnarsigur, bættu við sig 3,1% og 2 þingsætum.

Þeir sem töpuðu eru ótvírætt Sjálfstæðisflokkurinn, en þeir fóru niður um 12,9% og 9 þingsæti og Frjálslindi flokkurinn sem fékk aðeins 2,2% tapaði 5,1% og misstu alla sína 4 þingmenn.

Vil ég óska Vinstri grænum til hamingju með sigurinn með von um að þeir standi í fæturna í ESB málunum og láti ekki blekkingarvef SF draga sig á tálar.

Það er rangt að halda því fram að þjóðin hafi kosið yfir sig umsóknar aðild að ESB.


Lýðskrum Jóhönnu Sigurðardóttur og Sandfylkingarinnar

Í blöðunum í dag er auglýsing frá Sandfylkingunni með mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur þar sem segir "ESB snýst um vinnu og velferð".  Þvílíkt og annað eins lýðskrum og það frá flokki Jóhönnu sem þykist vera vinur litla mannsins.

Staðreyndin er sú að í ESB er viðloðandi 7 - 10% atvinnuleysi í góðæri.  Í dag heyrði ég á BBC talað um 25% atvinnuleysi meðal ungs fólks í Frakklandi, á Spáni er 17% atvinnuleysi (miðað við alla atvinnubærra manna), í Þýskalandi, mesta útflutningslandi heims þar sem atvinnustigið hefur alltaf verið talið hátt er spáð 10% atvinnuleysi á þessu ári og að það muni enn aukast á næsta ári.  Í ESB eru mikil félagsleg vandamál og er það ekki síst vegna atvinnuástandsins.  Í mörgum ESB ríkja er fátækt svo mikil að fólk á erfitt með að lifa af þeim litlu tekjum sem það hefur.

Í ofangreindri auglýsingu er gefið í skin að með inngöngu í ESB er því haldið fram að vextir verði lægri.  Veit Sandfylkingin ekki að Jóhanna formaður þeirra er forsætisráðherra, hún rak Seðlabankastjórana því að þeir voru fyrir og vextir lækkuðu ekki nógu hratt hjá þeim, svo hún sótti norskan Sandfylkingarmann til að lækka vextina, en hvað hefur nú gerst, hröð vaxtalækkun um 2,5 prósentustig ?  Það er á valdi Sandfylkingar Seðlabankans að lækka vexti mun hraðar og allt niður í 5% án þess að allt fari úr böndunum, yrðum við þó með mörgum sinnu hærri stýrivexti en nágrannaþjóðir okkar.

Fjölbreyttari atvinnusköpun ? ja hérna, ekki er að sjá að Sandfylkingin eða Vinstri grænir hafi hugmynd um hvernig hlutirnir virka.  Það er á valdi þessara flokka að skapa skilyrði fyrir fyrirtækin í landinu og um leið fyrir ný fyrirtæki og atvinnuvegi.  Það væri t.d. gert með því að lækka vextina, en nei takk Sandfylkingin veit sem er að með því að halda þjóðinni í spennitreyju væri hugsanlega hægt að koma henni inn í ESB söfnuðinn þeirra.

Trúverðugleiki Sandfylkingarinnar er algerlega búinn að vera.  Gegnsæið sem þeim er tamt að tala um er ekkert annað en prump.  Það var ekki mikið gagnsæi í orðagjálfri Jóhönnu á sjónvarpsstöðvunum í kvöld.  Hlutum er haldið frá kjósendum.  Kjósendur fá ekki að vita fyrir kosningar ýmislegt sem skiptir okkur öll máli.  Það sama má segja um VG, þeim er tamt að tala um heiðarleika, en það fór ekki mikið fyrir heiðarleika í málflutningi Steingríms í kvöld, hann tekur þátt í því að leyna kjósendum mikilvægum málum.

Þegar Steingrímur var í stjórnarandstöðu hafði hann hátt og krafðist svara og lét öllum illum látum, en nú sagði hann, oftar en einu sinni um leið og hann talaði rólega "...við skulum halda ró okkar, verum ekki með neinn æsing".

Það er einkennilegt að sjá afstöðu manna eftir því hvoru megin við borðið þeir sitja.


Verður kreppan dýpri eða náum við að klóra okkur út úr henni ?

Valið sem við stöndum frammi fyrir á laugardaginn er á milli þess að fara niður í enn dýpri kreppu og sennilega algert kerfishrun eða að við náum að klóra okkur út úr kreppunni á nokkrum árum.

Það dylst engum sem skoðar grannt að ráð ríkisstjórnarinnar við efnahags-ástandinu eru engin.  Allar aðgerðir eru klór og fálm út í loftið.  Engar þeirra aðgerða sem ríkisstjórnin stærir sig af kemur að neinu gagni, ekki einu sinni fyrir þá verst settu. 

Með því að kjósa ríkisstjórnarflokkana erum við að kjósa yfir okkur dýpri kreppu en verið hefur frá stríðslokum.  Með því að draga enn á langinn að koma heimilunum og fyrirtækjunum til bjargar og bíða eftir að allt sé komið í kalda kol, eins og ríkisstjórnin hefur verið að gera, þá verður hér algert hrun.  Jóhanna og co. halda áfram að berja hausnum við steininn og virðast algerlega blind á vanda fólks.  Já ég er að tala um heilögu Jóhönnu sem má ekki vamm sitt vita þegar illa stendur á hjá fólki og allir dá og dýrka.   Nú neitar hún að hlusta á ráð sem duga og geta hjálpað þúsundum heimila.

Það er ekki nóg með það að ríkisstjórnin vill ekki hjálpa heimilunum, þrátt fyrir skjaldborgar loforðið, heldur ætla þessir flokkar að leggja meiri álögur á þessi sömu heimili í formi nýrra og hærri skatta.

Eina lausnin sem Sandfylkingin býður uppá er að ganga í ESB.  Með inngöngu í ESB á allt að verða gott og öll vandamál verða fyrir bí.  Á hátíðlegum stundum tala talsmenn SF um lýðræði, en þeir fjalla ekki um hversu ólýðræðislegur félagsskapur ESB er.  Í ESB er lýðræðinu troðið um tær.  Með inngöngu í ESB er úti um íslenska þjóð. Í ESB er viðloðandi 7 - 10 prósent atvinnuleysi í góðæri. 

Ef aðrir flokkar komast til valda eftir kosningar er möguleiki á því að við getum klórað okkur upp úr vandanum sem við höfum komist í.  Það verður ekki auðvelt, en þar er von, nokkuð sem ekki er hægt að tala um komist Sandfylkingin og Vinstri græn til valda.

Fyrir alla muni, hleypum ekki þeim flokkum að stjórnartaumum eftir kosningar því þá er voðinn vís.  Höfnum ríkisstjórnarflokkunum í kosningunum á laugardag.


Hvað skal kjósa ????

Ég er búinn að vera velta því fyrir mér hvað ég eigi að kjósa næstkomandi laugardag.  Ég verð að viðurkenna að ég er orðinn svolítið ráðvilltur.  Ég hef að nokkru notað útilokunaraðferðina en hún dugar bara of skammt. 

Ég veit að ég get ekki kosið Sandfylkinguna, í fyrsta lagi vegna þess að fylkingin vill í ESB, í öðru lagi vegna þess að fylkingin er flokkur upplausnar og stefnuleysis, í þriðja lagi hefur fylkingin ekki komið með eða bent á lausn á vanda heimilanna og fyrirtækjanna í landinu, í fjórða lagi brýtur fylkingin stjórnarskránna með því að ráða útlending í stöðu Seðlabankastjóra, í fimmta lagi þá er utanríkisstefna Sandfylkingarinnar sú ein að elta norsku utanríkisstefnuna, í sjötta lagi vill forsætisráðherra ekki upplýsa okkur um hina raunverulegu stöðu mála, í sjöunda lagi þá er fylkingin bara fylking tækifærissinna, í áttunda lagi er lýðræði léttvægt í huga forsætisráðherra og annarra úr fylkingunni o.s.fr., o.s.fr.

Frjálslyndi flokkurinn kemur ekki til greina enda er hann að deyja út.

Vinstri grænir hefðu komið til greina fyrir nokkru síðan vegna stefnu þeirra í ESB málum, en nú veit maður ekki hvað þeir eru tilbúnir að gera fyrir ráðherrastólana.  VG hafa lýst því yfir að þeir ætli að hækka skatta á lægri tekjur og setja þar með heimilin og fyrirtækin endanlega á hausinn.  Ég treysti VG einfaldlega ekki til að fara með völdin í landinu, efnahags- og peningamál, frekar en SF.

Borgarahreyfingin er óskrifað blað og þó, mér sýnist þetta vera hópur ólíkra einstaklinga sem stefna í ólíkar áttir.  Það eina sem ég fæ séð að er þeir vilja í ESB og það eitt er nóg til að útiloka þá hreyfingu.

Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur komið með raunverulegar tillögur til bjargar heimilum og fyrirtækjum.  Sú tillaga er ekki endanleg því útfæra þarf hana betur svo að sú lausn sem þeir boða verði til að bjarga öllum þeim sem er í verulegum erfiðleikum.  Framsóknar-flokkinn hef ég aldrei kosið og væri það mér mikið á móti skapi at taka upp á því núna.  Þeir hafa opnað glufu inn í ESB, ég á erfitt með að treysta þeim, þeir hafa sýnt það að þeim er ekki full treystandi, opnir í báða enda og flausturslegir í athöfnum.  Stuðningur þeirra við núverandi ríkisstjórn er ekki til að auka traustið á þeim.  Ég treysti þeim ekki til að standa í lappirnar í samstarfi við aðra flokka, þó þeir hafi nokkur góð mál sem skipta máli.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur valdið miklum vonbrigðum.  Styrkjamálin eru forkastanleg og maður verður kjaftstopp.  Sjálfstæðisflokknum hefur ekki tekist að útskýra þau málefni sem þeir vilja vinna að.  ESB málflutningurinn er ótrúverðugur, efnahagsmálin óljós, peningamálin og Evru snakk úti á þekju.

Ef flokkarnir vilja ná til fólks verða þeir að vera hreinskilnir og segja hlutina eins og þeir eru.  Það má segja að VG hafa að hluta til gert það, en sú hreinskilni bendir til þess að þeir setji þjóðina alveg á hausinn.  Tal Sandfylkingarinnar um ónýta krónu er eitt mesta efnahags vandamál sem við er að etja í dag, því að með slíku tali hefur fylkingin talað krónuna niður og hafa aðrir ESB sinnar verið ötulir við að aðstoða fylkinguna á þeirri vegferð.

Allir hafa flokkarnir tekið þátt í að samþykkja lög um greiðsluaðlögun og fleira í þeim dúr, aðgerðir sem koma fólki að engu gagni, frestar vandanum hjá sumum um stund, en er ekki nein lausn. 

Fólkið og fyrirtækin þurfa lausn.  Lausnin er ekki í ESB og ekki þeim aðgerðum sem stjórnvöld hafa farið í.  Það verður að taka á málum af alvöru annars verður annað hrun, sem menn eru þegar farnir að spá að verði.  Kerfishrun verður ekki umflúið í ESB og ekki í ónýtum aðgerðum ríkisvaldsins heldur með því að takast á við vandan sem fyrir er og það strax.  Ef ekkert verður að gert strax eftir kosningar, getum við gleymt því að tala um efnahag, peninga, velferð eða nokkuð annað, það verður of seint í haust.

Kannski skila ég bara auðu eða mæti ekki á kjörstað, hver veit ?  ekki ákveðinn enn.

 


Óska eftir svörum frá stjórnmálaflokkunum

Nú þegar fimm dagar eru til kosninga væri ekki úr vegi að krefja ríkisstjórnarflokkana svara við brennandi spurningum, en allar líkur benda til að þessir tveir flokkar muni starfa saman eftir kosningar.

Í fyrsta lagi:  Hvaða úrræði hefur Sandfylkingin í efnahagsmálum annað en að troða okkur inn í ESB.  Ljóst er að jafnvel þó við gengjum í ESB og fengjum úrlausn okkar mála þar, sem þó virðist langsótt, þá er langur vegur í að við komumst í það "skjól".  Íslensk heimili og fyrirtæki verða öll komin á hausinn áður en við komumst inn í ESB ef ekkert verður að gert þeim til bjargar.

Í öðru lagi:  Hvað hyggst VG gera annað en að hækka skatta á lægri tekjur fólks og fyrirtækja.  Ég fullyrði að með hækkun beinna skatttekna muni tekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga minnka.  Auknir skattar muni ganga endanlega frá heimilum og fyrirtækjum landsins.  Eftir því sem skattar verða hærri verða ráðstöfunartekjur lægri og þá minnkar neyslan, sem aftur þýðir að fleiri fyrirtæki fara yfir um og enn mun fjölga á atvinnuleysisskrá.

Í þriðja lagi:  Ef Sjálfstæðisflokkurinn væri til í að fara niðurfærsluleiðina, væri Framsóknarflokkurinn þá tilbúinn að fara í stjórn með Sjálfstæðisflokknum til að tryggja að sú leið verði farin ?  Þessir tveir flokkar verða að segja kjósendum hvað þeir hyggjast gera í þessum efnum og útskýra fyrir fólki af hverju þessi leið sé fær.  Í mínum huga er þetta eina leiðin sem blasir við sem getur orðið heimilum og fyrirtækjum til hjálpar, en gera má ráð fyrir að frekari útfærslu sé þörf, sérstaklega hvað varðar þá sem verst eru settir og eins að setja þak á mestu skuldirnar.  Útfærslan ætti ekki að vera vandamálið, vilji er allt sem þarf.

Eitt virðist á hreinu hvað ríkisstjórnarflokkana varðar, þeir vilja ekki fara niðurfærsluleiðina, nema kannski Lilja Mósesdóttir hjá VG.  En mér finnst vanta skír svör frá t.d. Sjálfstæðisflokknum í þeim efnum, en Tryggvi Þór Herbertsson er sá eini sem hefur talað afdráttarlaust í þeim efnum svo ég best veit.

Þetta eru eingöngu þrjár af mörgum brennandi spurningum sem hvíla á fólki í dag, en svör við þeim geta orðið afdrifarík fyrir land og þjóð.  Stjórnmála-flokkarnir hafa ekki leyfi til að halda þessum upplýsingum frá fólki, né öðrum upplýsingum er varðar þjóðarhag og liggja fyrir, en haldið er leyndum.

 


Það hefur fallið á silfrið hans Egils

Egill Helgason kallaði til sín hóp ESB trúboða sem héldu uppi áróðri sínum mjög fjálglega.  Benedikt Jóhannesson segi okkur að ef við sækjum ekki um aðild að ESB verði landlæg fátækt hér á landi.  Hann veit líklega ekki um alla fátæktina í ESB ríkjum, fátækt sem er tilkomin vegna atvinnuleysis, atvinnuleysis sem var viðloðandi áður en heimskreppan skall á.  ESB trúboðar telja að okkur sé borgið í sambandinu, við verðum skyndilega trúverðug í augum annarra þjóða, við verðum skyndilega lánshæf, okkur verði treyst og allt verði miklu betra, en þeir útskýra aldrei hvernig þetta allt muni breytast svo.  Ég á í mesta basli með að skilja hvernig við verðum allt í einu trúverðug, með því að ganga í ESB, eða af hverju okkur verður allt í einu treyst fyrir fjármunum annarra og af hverju aðrar þjóðir taki allt í einu upp á því að treysta okkur.  Okkur er bara sagt að allt sé betra í ESB.

Fréttir frá ESB ríkinu Finnlandi gefur ekki tilefni til bjartsýni.  Þar er því spáð að þjóðarframleiðslan muni dragast saman um 5 prósent á þessu ári hið minnsta.  Skuldir Finna aukist úr 30 prósentum af þjóðarframleiðslu í um 50 prósent.  Hér fara menn varlega í allar spár þar sem óþægilegt er að rugga bátnum um of til að byrja með og menn vilja ekki gera Finna órólega, en reynslan er sú að þegar lengra líður kemur í ljós að ástandið er mun alvarlegra.   Það er nokkuð sem okkur verður tjáð eftir kosningar um ástandið hér á landi.

Eitt er það sem ESB trúboðar segja okkur ekki, en það hver aldurssamsetningin er í ESB löndum, en þar er stærri hluti íbúa yfir miðjum aldri og mjög stór hópur nálgast eftirlaunaaldur á meðan fólk undir miðjum aldri, þeir sem koma til með að halda eftirlaunþegum uppi, er mun fámennari.  Þess ber að geta að ESB ríki eru ekki með lífeyrissjóði eins og við höfum, þar er gert ráð fyrir því að þeir sem eru á vinnumarkaði haldi lífeyrisþegum uppi í gegnum skattkerfið.  Ég gæti trúað því að þeir sem eru innan við fertugt séu innan við helmingur íbúa ESB og eftir því sem íbúar eru yngri er fjöldinn minni.  Á meðan fjöldi þeirra sem er á aldrinum 40-44 ára eru tæpir 40milljónir þá er fjöldi þeirra sem eru 5-9 ára um 25milljónir og 0-4 ára ca. 22-23milljónir.  Kúrfan sem sýnir íbúafjölda undir 40 ára aldri niður í 0 er sífeld lækkandi.

Á meðan íbúum ESB landa hefur farið sífeld fækkandi hefur fjölgun verið hér á landi og meðaltalið verið um og yfir 2%, ekki hafa allar þjóðir í Evrópu getað státað af því.

Lítið fer fyrir því í umræðu ESB trúboða hversu mikið talið er að við þurfum að greiða fyrir veru okkar í klúbbnum.  Við getum verið viss um það að það verður ekki ókeypis.  Jú, jú sagt er að við fáum fé í staðinn.  Hvaða rugl er það ? af hverju þurfum við að þiggja fé frá ESB eftir að við höfum þurft að reyða fram fé í apparatið ?  erum við ekki fær um að útdeila okkar eigin fé sjálf eftir þörfum samfélagsins ?

Þessi klúbbur er engin hjálparsamtök þvert á móti, það hafa íbúar Evrópu sem eru innan ESB fengið að reyna.


mbl.is Djúp kreppa í Finnlandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Takk fyrir Gunnar Svavarsson

Einn er sá Sandfylkingarmaður sem hefur átt erindi á Alþingi, en það er Gunnar Svavarsson, sem nú hefur látið af þingmennsku.  Mér segir svo hugur að Gunnari sé létt að vera laus við þingmennskuna, ekki endilega að hann sé ósáttur við störf sín þar, heldur vegna þess hvernig forusta fylkingarinnar kom fram við hann.  Jú, hann varð formaður fjárlaganefndar sem er ábyrgðarmikið starf og sinnti hann því starfi af kostgæfni, en sem forustumaður í höfuðvígi fylkingarinnar, í kraganum, hefði eðlilega átt tilkall til ráðherrastóls.  En nei takk, Gunnar var ekki í innsta hring og ekki í náðinni hjá Ingibjörgu Gísladóttur.

Þakka þér Gunnar fyrir framlag þitt til góðra mála á þingi, ég hef ekki ástæðu til að þakka öðrum úr þínum flokki.

 


mbl.is Takk fyrir, búið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Löng kreppa framundan segir AGS

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn spáir því að kreppan verði langvin og djúp og enginn komist undan henni.  Já ég trúi því að enn eigi kreppan eftir að dýpka og það allverulega.

Menn munu halda áfram að kaupa og selja hlutabréf í von um að nú fari allt upp á við, en ég er hræddur um að margir verði fyrir vonbrigðum og enn munu menn tapa stórum upphæðum.

Ein af megin ástæðum þessa er sú að stjórnvöld eru ekki að gera það sem gera þarf.  Það er ekki nóg að setja fúlgur fjár í bankana eða vinsæl fyrirtæki.  Aðgerðir þurfa að koma til sem gagnast öllum, en ekki bara sumum.

Við verðum að horfast í augu við það að fólk og fyrirtæki hafa reist sér hurðarás um öxl og ræður ekki við að borga af skuldum sínum.  Þá gerist það að fólk og fyrirtæki fara á hausinn, en hverjir eru það sem tapa ? jú það eru lánveitendur og fólk sem vinnur hjá fyrirtækjunum fólkið sem verður atvinnulaust og ríkið sem verður af skatttekjum.

 

Það eina sem getur komið til hjálpar og vakið nýja von er niðurfærsla skulda.  Hverjir tapa á slíkum aðgerðum ?  það eru að sjálfsögðu lánveitendur, en tap þeirra við slíkar aðgerðir eru minni en ef allt efnahagslífið hrinur til grunna, þá yrði tap lánveitenda óbærilegt.

 

Með niðurfærslu skulda fengi fólk og fyrirtæki nýja von, neysla tæki að aukast og hjól atvinnulífsins færu hægt og bítandi í gang.  Á nokkrum mánuðum kæmist efnahagslífið á góðan rekspöl.

Nú er það undir stjórnvöldum komið að gera það sem gera þarf og taka þær ákvarðanir sem eru öllum til hagsbóta.  Fálm og ómarkvissar aðgerðir koma að engu gagni.  Niðurfærsla skulda er eina leiðin út úr vandanum.  Evra kemur ekki til með að hjálpa því sá gjaldmiðill á aðeins eftir að fara sömu leið og krónan okkar, það er bara tímaspursmál.

ESB löndin eru að sigla í mjög djúpa kreppu og er Seðlabanki ESB ekki að ráða við vandann sem steðjar að. Ég skora á stjórnmálamenn sem vilja láta taka sig alvarlega að taka upp þessar hugmyndir og fylgja þeim eftir eftir að nýtt þing kemur saman.
mbl.is Svört spá frá IMF
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tómas Ibsen Halldórsson

Höfundur

Tómas Ibsen Halldórsson
Tómas Ibsen Halldórsson
Er viðurkenndur bókari, hef áhuga á þjóðmálum, trúmálum og ýmsu öðru
Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • A Syrian child

Nota bene

Tedros

https://rumble.com/vr8g4m-w.h.o.-dr.-tedros-slips-up-and-admits-some-countries-using-booster-shots-to.html

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.10.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 20
  • Frá upphafi: 1

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 18
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband