Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Sjálfstæðisflokkurinn brást þjóðinni

Ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með Sjálfstæðisflokkinn í Icesave- málinu, en á sama tíma hrósa ég Framsóknarmönnum fyrir þeirra framgöngu. 

Það má mikið breytast í Sjálfstæðisflokknum og Icesave-málinu öllu til þess að koma í veg fyrir varanlegan viðskilnað minn við Sjálfstæðisflokkinn.

Það er ekki nóg af formanni Sjálfstæðisflokksins að varpa ábyrgðinni af Icesave yfir á ríkisstjórnina í ræðustóli og sitja síðan hjá við atkvæðagreiðsluna. 

Hjásetan var ekkert annað en stuðningur við tillögu ríkisstjórnarinnar og er því ábyrgðin að fullu hjá þeim Sjálfstæðismönnum sem ekki sögðu nei.

Ég hrósa þeim Árna Johnsen og Birgi Ármannssyni fyrir að standa í fæturna ásamt Framsóknarmönnum og hluta af Borgarahreyfingunni á sama tíma og ég lýsi vonbrigðum mínum með aðra þingmenn.


Icesave-nauðasamningur samþykktur á Alþingi

Alþingi Íslands hefur brugðist þjóðinni.  Icesave-nauðasamningurinn var samþykktur.  Í stað þess að stjórnarandstaðan stæði saman einhuga gegn áætlun ríkisstjórnarinnar, var hún sundruð og stór hluti sat hjá í stað þess að segja NEI.

Ábyrgð á því sem framundan er í íslensku þjóðfélagi hvílir á stjórnarflokkunum og þeim þingmönnum sem ekki sögðu NEI.

 


Örlagaríkur dagur á morgun

Umræðum um Icesave-samningana er lokið á Alþingi, þingmenn fá að sofa á því í nótt og láta sig dreyma um hvaða takka ýta skuli á við atkvæðagreiðsluna á morgun. 

Ég óska þess að allir draumar þingmannanna verði til þess að leiða þá í sannleikann um Icesave og í framhaldi af því taki þeir ábyrga afstöðu til þessa erfiða og mjög svo umdeilda máls. 

Þegar þingmenn taka endanlega afstöðu til samninganna verða þeir að hafa hag þjóðarinnar að leiðarljósi, menn verða að leggja flokkshag til hliðar eða hag ESB, Breta eða Hollendinga, þeir verða að hafa hag íslensku þjóðarinnar, fólksins í landinu að leiðarljósi og minnast þess að þeir eru í umboði okkar á Alþingi.

Íslenska þjóðin er ekki í stakk búin til að taka á sig þessar skuldir, það er víst.  Ef stjórnmálamenn vilja sjá bjartari framtíð fyrir íslenska þjóð þá segja þeir NEI við Icesave og við framtíð þjóðarinnar án Icesave-nauðasamninga.

Guð forði okkur frá því að Alþingi klúðri málum og leggi fjötra á íslensku þjóðina.

 


Norræn velferðarstjórn ?

Úrræði norrænu velferðarstjórnarinnar hefur ekki komið neinum að gagni.  Það sem átti að vera fólki í nauð til hjálpar hefur fremur gert illt verra.

Ótrúlegt er, eins og stjórnarflokkarnir lögðu mikla áherslu á að hjálpa heimilunum og þeim sem voru í vanda stödd, fyrir kosningar, hafa gjörsamlega lítilsvirt þetta sama fólk og skilið það eftir úti í kuldanum á sama tíma og öll áhersla er lögð á að bjarga þeim sem komu þjóðinni í þá stöðu sem hún er í. 

Við þetta má ekki búa lengur, breytingar þurfa að eiga sér stað og það ekki seinna en strax.  Ef stjórnvöld halda áfram að draga lappirnar gagnvart heimilum og fyrirtækjum landsins þá munu erfiðleikarnir margfaldast á allra næstu vikum.  Ef stjórnvöld ætla íslensku þjóðinni að bera ábyrgð á Icesave-nauðasamningunum, þá er úti um þessa þjóð.  Ef stjórnvöld ætla að troða íslensku þjóðinni inn í Evrópusambandið, þá er úti um þessa þjóð.  Ef ekki verða breytingar hjá stjórnvöldum nú þegar, þá er úti um þessa þjóð.

Það sem þarf að gera strax er eftirfarandi:

  • Hafna Icesave-nauðasamningunum
  • Lækka vexti
  • Færa niður höfuðstól húsnæðislána
  • Afnema verðtryggingu og gengistryggingu
  • Láta þá, sem farið hafa í greiðsluaðlögun, fá yfirráð yfir fjármunum sínum
  • Senda fulltrúa AGS heim
  • Draga til baka aðildarumsókn að ESB

 


Nýja stjórn, nýja þingmenn

Sitjandi ríkisstjórn hefur sýnt landslýð mikla lítilsvirðingu.  Stjórnvöld ætlast til þess að gjaldþrota, eignalaus almúginn sjái um að greiða skuldir óreiðumanna og halda uppi bankakerfinu í formi ofurvaxta, verðtryggingar og gengisbundinna lána, einnig þurfa þeir sem hafa einhverjar tekjur, tekjur sem þegar hafa verið skertar, haldi uppi síauknum fjölda atvinnulausra auk þess sem halda þarf uppi ónýtum þjóðarbúskap, borga af erlendum lánum og borga fyrir gæluverkefni stjórnmálamannanna.

Ekki má koma til móts við landslýð, hann hefur ekki gott af því, hann gæti farið að eyða um efni fram.  Afskriftir eða niðurfærsla lána, eins og það er stundum kallað, yrði bara til þess að fólk hefði of mikla fjármuni milli handa og líklegt að það færi að sólunda þeim í Kringlunni eða einhversstaðar annarsstaðar.  Ekki má hugsa sér það að fólk færi að borga til ríkisins í formi neysluskatta, það væri glapræði, ríkið hefði ekki gott af slíkum tekjum.

Nei, það er komið nóg ! ! !

Nú þarf að taka til hendinni.  Lækka þarf greiðslubirgði heimilanna með því að lækka skuldirnar handvirkt.  Nú dugar ekki að afskrifa lán fólks um 20%, nú þarf að afskrifa um 25 til 30% yfir línuna og síðan meira hjá þeim sem eru í miklum vanda, eða allt að 60 til 75%.

Droll ríkisstjórnarinnar í þessum efnum veldur því að þær tillögur sem uppi voru í vetur duga ekki til.

Stoppa verður frumvarp um ríkisábyrgð á Icesave-nauðasamningana.

Draga verður til baka umsókn að Evrópusambandinu.

Setja verður þessa ríkisstjórn af og nýjar kosningar þurfa að fara fram.  Alþingi hefur eytt allt of miklum tíma í ekki neitt og nú þurfum við nýtt fólk til að taka við keflinu, fólk með ábyrgðatilfinningu og lætur hjartað ráða, ekki flokkspólitík.

 


Er hausta tekur

Nú líður að hausti, skólarnir að taka til starfa á ný, sumarið að baki, veður fer kólnandi og haustvindar blása.  Margir hafa kviðið haustinu, sumir hafa lokað á allar hugsanir um komandi haust og ákveðið að njóta augnabliksins meðan sumarið hefur leikið við okkur.

Nú tekur alvaran við.  Margir foreldrar hafa kviðið skólagöngu barna sinna, því að þeir hafa séð í hendi sér að þeir geta ekki veitt þeim það sama og áður, eða það sem aðrir foreldrar hafa efni á að veita börnum sínum.

Það sem skortir á þessa dagana er að stjórnmálamenn, þá fyrst og síðast þeir sem sitja í ríkisstjórn, sjái hversu alvarleg staða heimilanna er.  Þeim fer fjölgandi sem sjá fram á harðan og erfiðan vetur.  Margir eiga enn eftir að átta sig á stöðu sinni og munu margir verða fyrir áföllum þegar fyrirtæki sem þeir vinna hjá geta ekki haldið starfsemi sinni úti.

Í stað þess að koma til móts við heimilin og fyrirtækin í landinu hafa stjórnvöld lagt alla áherslu á að bjarga bönkunum, en ekki gert sér grein fyrir því að það verður engin bankastarfsemi í landinu ef fyrirtæki og heimili fara áhliðina í enn ríkara mæli en hefur verið fram að þessu.

Félagsmálaráðherra er loksins farinn að átta sig á að ekki verði komist hjá því að afskrifa eitthvað af skuldum heimilanna, en hugmyndir hans ganga allt of skammt.  Hugmyndir félagsmálaráðherra ganga út á það að afskrifa eingöngu það sem þegar er tapað fé, í stað þess að ganga enn lengra og gera fólki kleyft að eiga eitthvað í húsnæði því sem það hefur verið að reyna að festa kaup á.  Með tillögu félagsmálaráðherra er aðeins verið að fresta vandanum því innan skamms mun þurfa að afskrifa enn meira. 

Það er óásættanlegt að fólk geti rétt svo skrimt.  Stjórnvöld verða að sína dug og takast á við vandann, ekki með "almennilegum vettlingatökum" eins og einn góður þingmaður orðaði það, heldur af alvöru og koma með aðgerðir sem duga og gefur fólki von um bjartari framtíð.

Eitt af því sem gera þarf til að gefa fólki von um betri tíma er að fella Icesave-nauðasamningana, skora ég á alla þingmenn í öllum flokkum að standa í fæturna og hafna þessum samningum sem eru ekkert annað en ávísun á fátækt og landflótta úr okkar annars góða landi.

 


Virðing stjórnvalda. Virðing þjóðarinnar.

Þegar stjórnvöld bera litla eða enga virðingu fyrir þjóð sinni, fólkinu í landinu, þá er ekki við því að búast að þjóðin beri virðingu fyrir stjórnvöldum.

Það er kominn tími til að stjórnvöld, þ.e. ríkisstjórn og Alþingi, taki af skarið og standi vörð um velferð þjóðarinnar, felli Icesave-nauðasamningana og fari að snúa sér að því að rétta við hag heimilanna og fyrirtækjanna.

Sá skrípaleikur sem hefur nú viðgengist í allt sumar er stjórnvöldum til skammar og hefur eingöngu verið til þess fallinn að íþyngja almenningi.

Ef ekki verður breyting á þá þarf að skipta um fólk í húsinu sem stendur við Kirkjustræti, gengt Austurvelli.  Það sama gildir um þær stöður sem þetta sama fólk hefur staðir vörð um, þ.e. ráðherrum og fylgdarliði þeirra.

 


Icesave = I-slave eða verður það I-save ?

Hvað ætli Alþingi "íslendinga" geri núna ?  Ætla þeir að samþykkja Icesave samningana þannig að sérhver íslendingur getur með sanni sagt I slave, eða munu þingmenn segja I save og þar með fella umrædda samninga ?

 


mbl.is Ekki hægt að afgreiða málið í núverandi mynd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu lengi er hægt að pína gjaldþrota, eignalaust fólk

Frá því að efnahagshrunið átti sér stað hafa verðmæti fasteigna farið lækkandi og eiga sjálfsagt enn eftir að lækka.  Á sama tíma hafa verðtryggð- og gengistryggð lán hækkað umtalsvert, gengi krónunnar hrunið, verðlag rokið upp og á enn eftir að hækka svo um munar, álögur ríkisins á ýmsa vöruflokka hækkað, tekjuskattur hækkaði um s.l. áramót og mun hækka um næstu áramót og fjármagnstekjuskattur hækkaði 1.júlí á fjármagnstekjur umfram kr. 250.000 í 15%.

Við efnahagshrunið fór eignastaða margra heimila úr því að vera jákvæð yfir í neikvæða eignastöðu.

Margt fólk á orðið erfitt að sjá út úr sínum málum.  Maður nokkur sem ég hef verið að vinna fyrir sótti um aðstoð Ráðgjafastofu heimilanna.  Hann þurfti að bíða í um tvo mánuði áður en mál hans voru tekin fyrir og útkoman úr ráðgjöfinni var ekki betri en svo að það er verra fyrir hann að fara að þeirra ráðum en að halda hlutunum óbreyttum.

Á sama tíma og erfiðleikar hrannast upp yfir heimilum landsins eru stjórnvöld að lofa erlendum ríkjum himinháum greiðslum úr vösum þessa sama fólks sem nú þegar er í vandræðum.  Viðskiptaráðherra segir ítrekað að þetta sé ekkert mál, við ráðum vel við Icesave-skuldbindingarnar.  Félagsmálaráðherra segir að ekki komi til greina almennar niðurfærslur skulda og aðrir stjórnarliðar segja að það sé svo dýrt og spyrja hverjir eigi að borga.

Því miður mætti halda að þetta fólk búi ekki í raunverulegum heimi.  Ef farið væri í niðurfærslu skulda (afskriftir) tækju lánastofnanirnar á sig skellinn, ef ekki verður farið út í þessar niðurfærslur mun skellurinn koma síðar og mun sá skellur ekki eingöngu lenda á lánastofnunum heldur á heimilunum, atvinnuvegunum og síðast en ekki síst á sjálfu ríkinu.  Áhyggjur sumra stjórnmálamanna þess eðlis að einhverjir, sem ekki þurfa á niðurfellingu að halda, væri næg ástæða til að fara ekki út í slíkar aðgerðir, þetta eu þess valdandi að þeir sem virkilega þurfa á slíkum almennum niðurfærslum að halda fá þær ekki.  Sem sagt það er betra að berja hinn saklausa frekar en að láta hinn seka sleppa.

Nú er mál að stjórnmálamenn standi með þjóðinni, en ekki erlendum nýlenduþjóðum sem farið hafa illa með nýlendur sýnar í gegnum aldirnar.

Uppákomur síðustu misserin minna um margt á það sem gerðist í Skotlandi fyrr á öldum, þegar sumir Skotar voru tilbúnir að gera allt fyrir Englendinga jafnvel svíkja sína eigin bræður, vini, sína eigin þjóð til þess að hljóta sjálfir náð í augum Englendinga og einhverja bitlinga.  Þeir svifust einskis, hröktu bændur af lendum sínum, brenndu hús þeirra og myrtu að fjölskyldum þeirra ásjáandi.  Þeim var ekkert heilagt. 

Því miður er ekki annað að sjá en slíkt eigi sér stað í dag hér á landi þ.e.a.s. ríkisstjórn og stjórnmálamönnum er ekkert heilagt þegar kemur að íslenskum almenningi, það má troða á þeim og pína þrátt fyrir gjaldþrot og eignaleysi, þeir (almenningur) skulu hraktir úr landi.

 


Nýjar sparnaðar tillögur

Það er ótækt að láta Rögnu Árnadóttur eina um taka ákvörðun um að skera niður, við verðum að hjálpa henni.  Hér kem ég með tillögu sem Ragna má gera að sinni, ef hún vill.

Best væri að leggja lögregluembættin niður, þau eru hvort sem er nærri óstarfhæf, það myndi spara okkur stórfé sem gæti nýst til að greiða Icesave nokkrum sinnum á næstu fimmtíu árum. 

Sama má segja um dómsvaldið.  Ef við legðum niður Héraðsdóm, Hæstarétt og saksóknaraembættin öll, þ.m.t. Evu Joly, myndi sparast stórfé sem gæti nýst til að halda uppi spillingunni í Brussel, sem við bara verðum að taka þátt í.  Íslenska dómsvaldið er hvort eð er handónýtt og kemur ekki að neinu gagni, nema til að til að láta okkur vita hvað útrásarvíkingarnir eru frábærir menn og fara allir að lögum er þeir arðræna íslenskan almenning.

Ragna, þú mátt gera þessar tillögur að þínum, gratís.  Mikið held ég að Jóhanna yrði ánægð með þig.

 


mbl.is „Róttækar breytingar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Tómas Ibsen Halldórsson

Höfundur

Tómas Ibsen Halldórsson
Tómas Ibsen Halldórsson
Er viðurkenndur bókari, hef áhuga á þjóðmálum, trúmálum og ýmsu öðru
Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • A Syrian child

Nota bene

Tedros

https://rumble.com/vr8g4m-w.h.o.-dr.-tedros-slips-up-and-admits-some-countries-using-booster-shots-to.html

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 31
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 26
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband