Trúarofstæki "trúleysingja" tröllríður þjóðfélaginu

Það er orðið illt í efni þegar Guðleg gildi þurfa að víkja vegna þess að nokkrir "trúleysingjar" vilja ýta Guði út úr þjóðfélaginu okkar og vegna þess að breyskir menn hafa orðið til þess að nafn Drottins hafi orðið fyrir lasti.

Það verður að viðurkennast að Kristnir menn eru breyskir, eins og aðrir menn, meira að segja stjórnmálamenn.  Kirkja Drottins líður fyrir misgjörðir sumra þeirra sem áttu að standa vörð um Kristin gildi.  En fagnaðarerindið snýst um það að við komum auga á syndir okkar, iðrumst þeirra og snúum baki við þeim.  Fagnaðarerindið er það að Guð gerðist maður, tók á sig afleiðingar gerða okkar og opnaði okkur leið að eilífum Guði sem er algóður, réttlátur, en jafnframt fyrirgefandi Guð.  Jesús segir í Jóhannesarguðspjalli 3.kafla og vers 16 Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. 

Þegar við gerum okkur grein fyrir því að við erum syndarar og eigum ekkert gott skilið, öðlumst trú á Drottinn Jesú Krist, iðrumst synda okkar, snúum frá þeim og leitumst við að gera rétt, þá tekur Guð okkur að sér og leiðir okkur og leiðbeinir á lífsins göngu.  Hér er ég ekki að fullyrða að við verðum fullkomin, en við eignumst samfélag við lifandi Guð og við viljum leitast við, með Guðs hjálp, að gera það sem rétt er.

Með því að meina hinum Kristnu kirkjum landsins, hvort heldur það eru þjóðkirkjusöfnuðir eða aðrar kirkjudeildir, að koma inn í skólana og fræða börnin um Jesú Krist og hin Kristnu gildi og með því að meina Gídeonfélögum, sem eru þverkirkjuleg samtök, að koma inn í skólana og afhenda börnunum Nýja Testamentið, þá er verið að ræna börnin þeim góðu og gildu gildum sem hafa viðgengist í landi okkar frá alda öðli.  Þá er verið að ræna þau þeim möguleika að komast í kynni við Hinn lifandi Guð sem skapaði þau og elskar þau. 

Hafa foreldrar verið spurðir að því hvort taka eigi frá börnum þeirra þá hefð og þau gildi sem viðhöfð hafa verið í áratugi???

Eitt af áróðursbragði "trúleysingja" er að það megi ekki beita áróðri á börnin, þau verði að fá að velja sjálf.  Á sama tíma beita "trúleysingjar" sínum trúaráróðri á börnin og þykir ekkert tiltökumál.  Hvílík hræsni.  Þeir vilja sem sagt meina börnum Kristinna foreldra og þeirra sem vilja viðhafa Kristin gildi að hljóta þá fræðslu um þau gildi sem þau trúa á.

Nei, hinn pólitíski rétttrúnaður á sem sagt að tröllríða öllu þjóðfélaginu, vegna þess að einhverjir fúskarar hafa komist til valda.

Það má ekki hleypa þessu liði lengra, hér verður að segja stopp.

 


mbl.is Tillögur valda óánægju
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Styrmir Reynisson

"Á sama tíma beita "trúleysingjar" sínum trúaráróðri á börnin og þykir ekkert tiltökumál. Hvílík hræsni."

Getur þú bent á dæmi um þetta?

 " Þeir vilja sem sagt meina börnum Kristinna foreldra og þeirra sem vilja viðhafa Kristin gildi að hljóta þá fræðslu um þau gildi sem þau trúa á."

Það ætlar enginn að kenna foreldrum að boða börnum sínum trú. Bara ríkinu að boða trú. 

Styrmir Reynisson, 18.10.2010 kl. 12:10

2 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Hvað kallarðu það þegar ekki má fjalla um Kristna trú í skólum, vegna þess að börnin eiga ekki að trúa á Guð Biblíunnar???  Þetta hefur margoft gerst. 

Ríkið boðar ekki trú, en "trúleysingjar" vilja standa í vegi fyrir því að kirkjan, eða aðrir Kristnir geri það.  Það er því miður svo komið víða á heimilum að foreldrar kunna ekki eða jafnvel þora ekki að kenna börnum sínum Kristin fræði af ótta við öfga "trúleysingja".

Þegar hinsvegar fjalla á um jólasveina, huldufólk eða álfa, eða tekin eru upp jógakennsla í skólum, jafnvel leikskólum, þá sér enginn ástæðu til að gera athugasemdir um slíkt.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.10.2010 kl. 12:28

3 Smámynd: Styrmir Reynisson

"Hvað kallarðu það þegar ekki má fjalla um Kristna trú í skólum, vegna þess að börnin eiga ekki að trúa á Guð Biblíunnar???" 

Trúarbragðafræði verður enn kennd. En trúboð bannað. Það er að segja að gefa í skyn að ein trú sé rétt og önnur ekki. Það að banna alla fræðslu um kristni þætti mér kjánalegt og það er ekki verið að banna neitt slíkt.

 "vegna þess að börnin eiga ekki að trúa á Guð Biblíunnar???" 

Það er ekki markmiðið með þessum breytingum að koma börnum hjá því að trúa á guð. Heldur vernda börn frá trúboði yfir höfuð. Trúar sem þau flest eru ekki komin með þegar þau mæta en eru hins vegar með þegar þau fara. Það er foreldranna að fræða þau ekki ríkisins. 

 "Þetta hefur margoft gerst. "

 Hvar og hvenær? 

Þetta gæti átt við kommúnistaríki en þau dæmi eru ekki sambærileg þessu á neinn hátt. 

"Ríkið boðar ekki trú, en "trúleysingjar" vilja standa í vegi fyrir því að kirkjan, eða aðrir Kristnir geri það."

Þegar prestar nýta sér aðstöðu ríkisins til að boða trú á kostnað ríkissins sem ríkisstarfsmenn.. Þá þarf mikla orðaleikfimi til að fá það út að ríkið stundi ekki trúboð. 

"Það er því miður svo komið víða á heimilum að foreldrar kunna ekki eða jafnvel þora ekki að kenna börnum sínum Kristin fræði af ótta við öfga "trúleysingja"."

Það er eiginlega tvennt við þessu að segja.

1. Getur þú bent á dæmi þess að einhver þori ekki að kenna börnum sínum það sem hann vill af ótta við "öfga" trúleysingja?

2. Það er enginn að ræða um að banna fólki að kenna börnunum sínum trú á hvað sem það vill. Enginn. Endilega bentu á dæmi um slíkt ef svo er. Vissulega eru margir trúleysingar á móti því að börnum sé boðuð trú vegna þess að þau hafa ekki vitsmuni til að beita gagnrýnni hugsun. En ég veit ekki um neinn sem myndi vilja að foreldrar fengju ekki að boða hvaða trú sem þeim sýnist.

"Þegar hinsvegar fjalla á um jólasveina, huldufólk eða álfa, eða tekin eru upp jógakennsla í skólum, jafnvel leikskólum, þá sér enginn ástæðu til að gera athugasemdir um slíkt."

Enginn kennari segir við börnin að Jólasveinar, huldufólk og álfar séu raunverulegar verur og muni refsa þér ef þú gerir ekki eins og þær segja. Það gera prestar hins vegar.

Jóga er leikfimi og kemur þessu ekkert við.

Styrmir Reynisson, 18.10.2010 kl. 12:44

4 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Á sama tíma beita "trúleysingjar" sínum trúaráróðri á börnin....

Hvað ertu að tala um þarna? Ég bara veit ekki til þess að trúleysingjar hafi eitthvað farið að boða trúleysi í leik- og grunnskólum.

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.10.2010 kl. 13:20

5 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Ekki dettur mér í hug Styrmir að segja þér sögur annarra, en ég get sagt þér að þegar börnin mín í leikskóla sögðu leikskólakennara sínum að þau hafi ekki fengið í skóinn og að jólasveinninn væri ekki til að þá varðaði það við Guðlast.

Ég veit ekki til þess að prestar hafi boðað fagnaðarerindið um Jesú Krist með hótunum, hvorki í skólum né annarsstaðar.  Þú getur kannski frætt mig um slíkt. 

Jóga er ekki bara saklaus leikfimi.  Jóga kemur úr Búdda og Hindúatrú og er samhliða líkamleg leikfimi og andleg, það breytist ekki þó hún sé framkvæmt á Íslandi, en ekki austur í Asíu.  Það er ekki von að þeir sem ekki eru andlegir sjái það ekki.

Hvað varðar boðun trúleysis, þá veit ég ekki hvort þið vitið ekki betur eða hvort þetta sé hluti af áróðri "trúleysingja", það sem mörgum öðrum virðist ljóst þykist þið ekki sjá.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.10.2010 kl. 14:19

6 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Hvað varðar boðun trúleysis, þá veit ég ekki hvort þið vitið ekki betur eða hvort þetta sé hluti af áróðri "trúleysingja", það sem mörgum öðrum virðist ljóst þykist þið ekki sjá.

Um hvað ertu að tala? Hvaða "trúaráróðri" erum við trúleysingjar að beita á börnin í leik- og grunnskólum?

Hjalti Rúnar Ómarsson, 18.10.2010 kl. 14:23

7 Smámynd: Styrmir Reynisson

Skrítið hvernig þú ferð fram básúnandi einhverjum yfirlýsingum og vilt svo ekki færa fram önnur dæmi en að kennari dóttur þinnar sé fífl.

Það kann að vera að ég sjái ekki trúboð trúleysingja vegna þess að það er ekki til staðar.

Þegar ég var smá patti var ég í sunnudagaskólanum og kristnifræðslu og fleira. Þar var endalaust hamrað á yfirvofandi vítisvist fyrir þá sem gleyptu ekki allt sem presturinn/kennarinn sagði. Í minni bók er það hótun. "gerðu eins og ég segi eða ég buffa þig" er það sem ég heyrði prestinn segja fyrir hönd guðsins sem ég þá trúði á.

Það er voðalega auðvelt að segja að fólk lendi í hinu og þessu en þegar þí neitar svo að koma með dæmi eða eitthvað til að gefa fullyrðingum þínum eitthvað gildi er ekki mikið mark á því takandi sem þú segir.

Styrmir Reynisson, 18.10.2010 kl. 15:05

8 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Í nafni trúleysis ykkar ætlið þið nú t.d. að standa í vegi fyrir því að börnin fái með eðlilegum hætti í Kristnu þjóðfélagi að heyra fagnaðarerindið um Jesú Krist.  Þetta er ekki í fyrsta sinn sem trúleysingjar gera sig gilda og reyna að koma í veg fyrir að talað sé við börnin um skapara þeirra og frelsara, það hefur margoft gerst.  Sumstaðar hafa foreldrar og aðrir staðið í lappirnar og ekki látið vaða yfir sig, en nú á sem sagt í nafni pólitísks rétttrúnaðar að koma í veg fyrir eðlilega fræðslu um Hann sem kom til að brúa bilið milli Guðs og manna.

Það á líka við þig kæri Hjalti, að svo elskaði Guð þig að Hann gaf Son sinn eingetinn til þess að þú, ef þú vilt trúa á Hann, glatist ekki heldur hafir eilíft líf.  Þetta fagnaðarerindi stendur þér og öðrum "trúleysingjum" til boða, því að Guð elskar þig/ykkur og Honum er annt um framtíð þína/ykkar, ekki aðeins í þessu lífi heldur því sem bíður okkar eftir að lífi okkar hér á jörðu líkur.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.10.2010 kl. 15:05

9 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Kæri Styrmir, ég kæri mig ekki um að tala um aðra en þá sem koma mér næst, ég hef ekki leyfi til að fjalla um reynslu annarra.

En Kristindómurinn og trú okkar á frelsarann Jesú Krist snýst ekki um hótanir heldur lausnir.  Ég get bara sagt við þig eins og Hjalta að svo elskar Guð þig að Hann gaf Son sinn, Jesú Krist, eingetinn til þess að þú, ef þú vilt trúa á Hann, glatist ekki heldur hafir eilíft líf. 

Ég get að sjálfsögðu ekki þvingað þig til trúar, það er bara verst fyrir þig að missa af því besta sem til er.  En þið getið heldur ekki staðið í vegi fyrir því að aðrir fái að njóta þess besta sem til er, en það er samfélagið við lifandi Guð skapara himins og jarðar.  Náðararmur Drottins stendur þér opinn, það eina sem til þarf er smá trú, auðmýkt og iðrun.

Drottinn elskar þig.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.10.2010 kl. 15:14

10 Smámynd: Styrmir Reynisson

Takk fyrir það sem ég er viss um að eru vel meint orð Tómas.

Þú ert samt enn að misskilja. Það er enginn að banna krisni eða að börn fræðist um kristni eða að foreldrar boði börnum sínum kristni. Bara að ríkið standi í trúboði.

Allir eru frjálsir til að trúa því sem þeir vilja og boða það sem þeir vilja. Ríkið á hins vegar að vera hlutlaust hvað trú varðar og menntastofnanir sérstaklega. 

Styrmir Reynisson, 18.10.2010 kl. 15:48

11 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Það eru aðrir Kristnir söfnuðir eða Kristin félagssamtök sem gjarnan vilja koma að því að segja börnunum frá Jesú, nú og Gídeonfélagar sem vilja afhenda þeim Nýja Testamentið að gjöf.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.10.2010 kl. 16:12

12 Smámynd: Óli Jón

Tómas: Þú segir eftirfarandi:

Í nafni trúleysis ykkar ætlið þið nú t.d. að standa í vegi fyrir því að börnin fái með eðlilegum hætti í Kristnu þjóðfélagi að heyra fagnaðarerindið um Jesú Krist.

Af hverju þarft þú að treysta á skólann til þess að gera þetta? Af hverju getur þú ekki bara gert þetta sjálfur? Hefurðu ekki tíma til þess að stússast í þessu? Hefurðu eitthvað annað og betra að gera? Er það of mikið ómak fyrir þig að renna með krakkana í sunnudagaskóla? Lesa úr Biblíunni? Treystirðu skólakerfinu betur til þess að gera þetta en sjálfum þér?

Óli Jón, 18.10.2010 kl. 16:37

13 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Þakka þér fyrir þessa ábendingu Óli Jón. 

Í uppeldi barna okkar sáum við hjónin um að uppfræða börnin okkar um trúna á Drottinn okkar og frelsara. 

Í Kristnu þjóðfélagi sem okkar hefur Kristnifræði og Biblíusögur verið mikilsvert og þar með uppfrætt börnin um þau gildi sem eru í þjóðfélaginu okkar.  Það er bara góð viðbót við það sem foreldrar gera heima fyrir og vekur oft upp spurningar og samtöl foreldra og barna heima fyrir um það sem þau læra í skólanum.

Tómas Ibsen Halldórsson, 18.10.2010 kl. 16:46

14 Smámynd: Hjalti Rúnar Ómarsson

Í nafni trúleysis ykkar ætlið þið nú t.d. að standa í vegi fyrir því að börnin fái með eðlilegum hætti í Kristnu þjóðfélagi að heyra fagnaðarerindið um Jesú Krist.

Tómas, það að fá ykkur til að hætta trúboði í leik- og grunnskólum er ekki það sama og að við trúleysingjarnir séum að "beita okkar áróðri á börnin í leik- og grunnskólum".

Staðreyndin er bara sú að ég held að flestir trúleysingjar vilji ekki boða trúleysi í skólum: við viljum hlutlausa skóla sem eru fyrir öll börn, ekki bara kristin. 

Þannig að tal þitt um að við séum hræsnarar þegar við reynum að stöðva trúboð kristinna manna í skólum er vitleysa. 

Hjalti Rúnar Ómarsson, 19.10.2010 kl. 03:11

15 Smámynd: Tómas Ibsen Halldórsson

Staðreyndin er bara sú að ég held að flestir trúleysingjar vilji ekki boða trúleysi í skólum: við viljum hlutlausa skóla sem eru fyrir öll börn, ekki bara kristin.

Nei Hjalti, trúleysingjar hafa verið iðnir við að boða trúleysi sitt í skólum, það er nú staðreyndin.  Ekki kannski á þann hátt að segja beint út að fólk eigi ekki að trúa á Guð skapara þeirra, heldur með því að boða það sem er andstætt því sem Heilög ritning boðar og með því að boða önnur gildi en þau gildi sem Biblían kennir.

Þannig að ég stend við það sem ég hef áður sagt um boðun "trúleysingja" í skólum.

Tómas Ibsen Halldórsson, 19.10.2010 kl. 09:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Tómas Ibsen Halldórsson

Höfundur

Tómas Ibsen Halldórsson
Tómas Ibsen Halldórsson
Er viðurkenndur bókari, hef áhuga á þjóðmálum, trúmálum og ýmsu öðru
Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • A Syrian child

Nota bene

Tedros

https://rumble.com/vr8g4m-w.h.o.-dr.-tedros-slips-up-and-admits-some-countries-using-booster-shots-to.html

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.4.): 0
  • Sl. sólarhring: 209
  • Sl. viku: 709
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 448
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband